Arsenal lagði Chelsea að velli, 1:0, í Lundúnaslag í 29. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í dag.
Úrslitin þýða að Arsenal er áfram í öðru sæti með 58 stig, 12 stigum á eftir Liverpool á toppnum. Chelsea er í fjórða sæti með 49 stig.
Arsenal-menn voru sterkari framan af og fengu fínustu færi til að taka forystuna snemma leiks.
Á 20. mínútu kom Mikel Merino Arsenal yfir. Það var eftir hornspyrnu Martin Ödegaard sem fann Merino á nærstönginni sem átti snyrtilegan skalla aftur fyrir sig í fjærhornið.
Í kjölfarið róaðist leikurinn töluvert og var Chelsea mun meira með boltann. Chelsea var nálægt því að jafna metin þegar David Raya, markvörður Arsenal, varði næstum skot Marc Cucurella inn í sitt eigið net.
Staðan í hálfleik 1:0, Arsenal í vil.
Seinni hálfleikur var mun rólegri en sá fyrri. Arsenal-menn voru þéttir fyrir og átti Chelsea í vandræðum með að skapa sér færi.
Besta færi síðari hálfleiksins fékk markaskorarinn Merino á 60. mínútu. Góð fyrirgjöf Martinelli fann Merino á fjærstönginni sem átti viðstöðulaust skot en Robert Sanchez gerði vel í því að verja frá honum.
Fátt fleira markvert gerðist í síðari hálfleik og enduðu leikar með 1:0-sigri Arsenal.