Tókst loksins að skora fyrir United

Bruno Fernandes skoraði eitt mark og lagði upp tvö í …
Bruno Fernandes skoraði eitt mark og lagði upp tvö í nótt. AFP/Adrian Dennis

Fyrstu mörk Rasmus Höjlunds og Alejandro Garnacho í rúmlega 20 leikjum tryggðu Manchester United 3:0-sigur á Leicester City á útivelli í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld.

Manchester United er í 13. sæti deildarinnar með 37 stig en Leicester er í 19. og næstneðsta sætinu með 17 stig og er níu stigum frá því að komast úr fallsæti.

United var með yfirhöndina í fyrri hálfleik en heimamenn fengu nokkur færi. Jamie Vardy komst í hættulegt færi eftir aðeins fjórar mínútur þegar hann var mættur gegn markmanni undir smá pressu frá Victor Lindelöf en skaut beint á André Onana sem varði.

Christian Eriksen var nálægt því að koma United yfir þegar 23 mínútur voru liðnar af leiknum en hann tók stutta hornspyrnu á Bruno Fernandes, fékk sendingu til baka frá honum og setti boltann í stöngina.

Fimm mínútum síðar komst United yfir en markið gerði danski framherjinn Rasmus Höjlund með hægri fæti eftir sendingu í gegn frá Fernandes. Höjlund skoraði síðast í deildinni 7. desember í 3:2-tapi gegn Nottingham Forest.

Rasmus Hojlund með boltann í kvöld.
Rasmus Hojlund með boltann í kvöld. AFP/Adrian Dennis

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Patson Daka frábært tækifæri til þess að jafna metin fyrir Leicester en hinn 18 ára gamli Ayden Heaven kastaði sér fyrir skotið. Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur hans í deildinni og hann stóð sig vel í fyrri hálfleik. Hann hélt áfram góðu gengi í upphafi seinni hálfleiks þegar heimamenn sóttu hratt og hann vann kapphlaup við Daka um boltann en meiddi sig þegar hann hreinsaði boltann burt og fór með börum af velli eftir aðeins 51 mínútu.

Alejandro Garnacho skoraði sitt fyrsta mark í deildinni síðan 10. nóvember en það kom líka gegn Leicester. Hann fékk boltann inn í miðjan teiginn frá Fernandes, tók góðan snúning og hamraði boltanum í netið.

Þetta var fyrsta mark Höjlund í 22 leikjum og fyrsta mark Garnacho í 24 leikjum.

Fyrirliðinn kóróaði svo frábæran leik sinn með marki á 90. mínútu eftir flottan undirbúning frá Diogo Dalot. Vængbakvörðurinn setti varnarmann Leicester á rassinn með einföldum skærum, kom svo með frábæra sendingu inn í d-bogann á fyrirliðann sem þrusaði boltanum með hægri fæti í vinstra hornið.

Leicester-menn reyndu að minnka muninn undir lok leiks og fengu þrjár hornspyrnur í röð en ekkert gekk. Þetta var áttundi heimaleikur liðsins í röð þar sem þeim hefur ekki tekist að skora mark.

Alejandro Garnacho að fagna í kvöld.
Alejandro Garnacho að fagna í kvöld. AFP/Adrian Dennis
Bruno Fernandes með boltann í leiknum.
Bruno Fernandes með boltann í leiknum. AFP/Adrian Dennis
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Liverpool 1:2 Newcastle opna
90. mín. Federico Chiesa (Liverpool) skorar +4 1:2 - Chiesa fær boltann í gegnum miðja vörnina frá Harvey Elliott og sendir hann í hægra hornið. Dæmdur rangstæður en VAR sýnir að markið er löglegt. Smá von fyrir Liverpool.

Leiklýsing

Leicester 0:3 Man. United opna loka
90. mín. Átta mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert