Andrew Robertson leikmaður Liverpool segir að Arne Slot stjóri Liverpool hafi verið mjög ákveðinn frá fyrsta degi að vinna titla með félaginu.
Slot tók við af Jürgen Klopp síðasta sumar en Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stiga forskot á Arsenal í öðru sæti deildarinnar.
„Þegar þú ert hjá félagi eins og Liverpool hefurðu ekki efni á aðlögunartímabili. Þetta er risastórt félag sem gerir ráð fyrir að vinna titla og stjórinn var mjög skýr varðandi það frá fyrsta degi,“ sagði Robertson.
„Í huga hans var ljóst að hann væri kominn til að vinna titla. Það var ekki eins og hann yrði ánægður með að enda í topp fjórum. Það á eftir að koma í ljós hvort við vinnum titla en hann hefur komið okkur á frábæran stað til að ná því,“ bætti Skotinn við.
Liverpool mætir Newcastle í úrslitum deildabikarsins klukkan 16.30 í dag. Leikurinn verður í beinni textalýsingu á mbl.is.