Það bendir allt til þess að nígeríski knattspyrnumaðurinn Victor Osimhen leiki í ensku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.
Það er talkSport sem greinir frá þessu en Osimhen, sem er 26 ára gamall, er á láni hjá Galatasaray í Tyrklandi þar sem hann mun klára tímabilið.
Hann er samningsbundinn Napoli í ítölsku A-deildinni en virðist ekki eiga mikla framtíð hjá félaginu eftir að hafa lent upp á kant við forráðamenn félagsins á síðustu leiktíð.
Osimhen hefur meðal annars verið orðaður við Manchester United og Chelsea. Þá gæti hann einnig fyllt skarð Alexanders Isaks hjá Newcastle ef hann rær á önnur mið.