Jamaíski knattspyrnumaðurinn Michail Antonio, sóknarmaður West Ham United, hefur tjáð sig um bílslysið alvarlega sem hann lenti í undir lok síðasta árs og var nálægt því að binda endi á líf hans.
Antonio var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl, ekki með sjúkraflugi eins og upphaflega var greint frá en í samtali við breska ríkisútvarpið skýrði hann frá því að veðrið hafi verið svo slæmt í byrjun desember að ekki hafi reynst unnt að takast á loft.
Sóknarmaðurinn sterkbyggði mölbraut á sér á fótinn er hann keyrði Ferrari lúxusbifreið sinni á tré og því hefur ekki verið talið sennilegt að Antonio myndi geta spilað knattspyrnu aftur. Sjálfur er hann þó viss um það.
„Já, 100 prósent. Ég mun spila aftur. Ég einbeiti mér að því að því og þess vegna er ég að leggja hart að mér sex daga vikunnar. Ég hef alltaf verið jákvæður. Þetta var skelfilegt slys og alvarleg meiðsli.
Þetta eru alvarlegustu meiðsli sem ég hef lent í en sú staðreynd að ég er tveimur til þremur mánuðum á undan áætlun fullvissar mig um að ég muni spila aftur. Ég veit að þegar ég spila aftur mun ég ná aftur fyrra formi,“ sagði Antonio.
Slysið varð þegar stormurinn Darragh reið yfir Bretlandseyjar í byrjun desember og man Antonio ekki eftir því að hafa klesst á tré eða hvernig hann fór að því.
Ljósmyndir af gjöreyðilagðri bifreiðinni voru birtar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum stuttu eftir slysið og flestir sem undruðu sig á því hvernig mögulegt væri að Antonio hafi komist lífs af.
Sjálfur sá Antonio myndirnar síðar en svo sá hann bílflakið með eigin augum í bíladýragarði.
„Ég fékk undarlega tilfinningu í magann. Ég áttaði mig þá á því hve nálægt því ég var að deyja. Ég hafði séð ljósmyndirnar en þetta var tíu sinnum verra í eigin persónu.
Bíllinn var gjörsamlega í rúst. Þetta var erfitt fyrir mig,“ sagði Antonio einnig við breska ríkisútvarpið.