Á förum frá United

Christian Eriksen í leik með Manchester United.
Christian Eriksen í leik með Manchester United. AFP/Paul Ellis

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen gerir ekki ráð fyrir öðru en að tími hans hjá Manchester United sé á enda þegar samningur hans við félagið rennur út í sumar.

Á fréttamannafundi í Helsingör í dag greindi Eriksen, sem er 33 ára gamall, frá því að nú þegar einungis þrír mánuðir eru eftir af samningi hans hafi hann ekkert heyrt frá forráðamönnum Man. United.

„Ég hef undirbúið það í huganum að finna mér eitthvað nýtt. Hvar það verður veit ég ekki enn þá en ég verð laus á frjálsri sölu, sem ég hef ekki prófað áður.

Ég var að vísu samningslaus eftir hjartastoppið en það voru aðeins öðruvísi aðstæður,“ sagði Eriksen og vísaði til þess þegar hann fékk gangráð eftir að hafa farið í hjartastopp með danska landsliðinu á EM 2021.

Fer ekki heim til Danmerkur

Þá var Eriksen samningsbundinn Inter Mílanó en á Ítalíu mega leikmenn ekki spila eftir að gangráður hefur verið græddur í þá.

Á fundinum útilokaði hann endurkomu til Danmerkur og þá vill Eriksen ekki halda til Bandaríkjanna. Auk þess sagði hann það ekki endilega í forgangi að halda kyrru fyrir á Englandi.

„Mér finnst ég enn hafa ýmislegt fram að færa erlendis. Knattspyrnulega líður mér ekki eins og ég sé þar enn þá að flytja heim og spila í dönsku úrvalsdeildinni,“ sagði Eriksen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert