Óhressir með hækkað miðaverð

Manchester United hefur átt erfitt tímabil og er í þrettánda …
Manchester United hefur átt erfitt tímabil og er í þrettánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar. AFP/Oli Scarff

Enska knattspyrnufélagið Manchester United ætlar að hækka miðaverð á leiki sína í úrvalsdeild karla fyrir tímabilið 2025-26 um fimm prósent og það leggst illa í stuðningsmannafélagið The Manchester United Supporters Trust, eða MUST.

Þetta er þriðja árið í röð sem United hækkar miðaverðið um fimm prósent og tilgangurinn er sagður sá að gera félagið fjárhagslega sjálfbært á nýjan leik.

Í yfirlýsingu frá MUST segir að stuðningsfólk félagsins hafi lýst yfir vonbrigðum með þessa ákvörðun og hafi kallað eftir því að miðaverð á leikina væri fryst.

„Við sjáum ekkert sem réttlætir þessa hækkun og höfum miklar áhyggjur af framhaldinu,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert