Jordan Pickford, markvörður Everton og enska landsliðsins í knattspyrnu, er hæstánægður með að nafni sinni Jordan Henderson sé kominn aftur í landsliðshópinn eftir nokkra fjarveru.
Það kom mörgum á óvart þegar Henderson var í fyrsta landsliðshópi nýja þjálfarans Thomas Tuchel enda hafði hinn 34 ára gamli miðjumaður ekki verið valinn síðan í nóvember árið 2023.
Hann spilar nú með Ajax í Hollandi eftir stutt stopp hjá Al Ettifaq í Sádi-Arabíu, þaðan sem Henderson fór frá Liverpool eftir tólf ára dvöl.
„Sigurvilji hans og það sem hann hefur unnið og áorkað kemur til vegna þess hvernig hann er. Hann er sigurvegari og mikill leiðtogi. Ég tel að það fá Hendo aftur inn sé frábært fyrir leikmannahópinn.
Hann var varafyrirliði í mörg ár. Hann var ekki með á síðasta EM en hann var varafyrirliði á HM 2018 þegar Harry Kane var fyrirliði. Það er frábært að hafa einhvern eins og Hendo,“ sagði Pickford á fréttamannafundi í dag.
„Það að hafa leiðtoga í hópnum er gott því liðin sem hafa unnið mótin hafa alltaf verið með slíka reynslu innanborðs. Ég tel það vera frábæra ákvörðun að hafa einhvern eins og hann í liðinu.
Hann hefur áorkað miklu og er enn mjög metnaðarfullur. Hvort sem hann spilar eða ekki verður hann leiðtogi á æfingasvæðinu,“ bætti markvörðurinn við.