Íhuga að fara gegn samkomulagi við United

Jadon Sancho í leik með Chelsea.
Jadon Sancho í leik með Chelsea. AFP/Benjamin Cremel

Enska knattspyrnufélagið Chelsea íhugar nú hvort það eigi að fara gegn samkomulagi sem það hefur gert við Manchester United um kaup á Jadon Sancho í sumar.

Sancho leikur með Chelsea að láni frá Man. United og í lánssamningnum er kveðið á um að Chelsea beri að festa kaup á honum fyrir 25 milljónir punda, 4,3 milljarða króna, að lánstímanum loknum fari svo að liðið endi ofar en í 14. sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Fátt virðist ætla að koma í veg fyrir það og greinir breska dagblaðið The i Paper frá því að Chelsea íhugi að nýta sér ákvæði í samningnum þar sem félagið getur greitt Man. United óuppgefna en háa upphæð til þess að falla frá kaupunum.

Misjöfn frammistaða Sancho á tímabilinu hefur valdið því að tvær grímur hafa runnið á Chelsea og ekki ósennilegt að félagið vilji einnig forðast að greiða honum há laun sín, sem nema 250.000 pundum eða 434 milljónum króna á viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert