Riccardo Calafiori, varnarmaður Arsenal og ítalska landsliðsins, þurfti að fara meiddur af velli undir lok leiks í 1:2-tapi Ítalíu fyrir Þýskalandi í átta liða úrslitum A-deildar Þjóðadeildarinnar í knattspyrnu í gærkvöldi.
Calafiori rann í grasinu á San Síro í Mílanó og meiddist á hné. Eftir að hafa hlotið aðhlynningu sjúkrateymis ítalska liðsins stóð hann upp en gaf merki um að geta ekki spilað lengur.
„Hann sagði að honum liði skringilega í hnénu en gat ekki gefið nákvæmara svar en það þannig að við þurfum að sjá til,“ sagði Luciano Spalletti landsliðsþjálfari Ítalíu við fréttamenn eftir leik.