Brasilíski knattspyrnumaðurinn Matheus Cunha, sóknarmaður Wolves, hefur verið úrskurðaður í fjögurra leikja bann eftir að hann missti stjórn á skapi sínu og fékk beint rautt spjald í leik gegn Bournemouth í ensku bikarkeppninni í byrjun mánaðarins.
Cunha gekk berserksgang undir lok framlengingar í leiknum er hann kýldi og skallaði svo Milos Kerkez, vinstri bakvörð Bournemouth.
Þegar var ljóst að Cunha færi í þriggja leikja bann en enska knattspyrnusambandið kærði Brasilíumanninn fyrir hátternið og ákvað að bæta einum leik við bannið og sekta hann um 50.000 pund, 8,6 milljónir íslenskra króna.
Cunha snýr því ekki aftur í lið Úlfanna fyrr en það mætir Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni 13. apríl.