866 milljónir fyrir að kaupa leikmanninn ekki

Jadon Sancho í leik með Chelsea.
Jadon Sancho í leik með Chelsea. AFP/Benjamin Cremel

Enska knattspyrnufélagið Chelsea mun þurfa að reiða af hendi fimm milljónir punda, tæplega 866 milljónir íslenskra króna, til Manchester United ætli það að koma sér undan því að festa kaup á enska kantmanninum Jadon Sancho.

Sancho fór að láni til Chelsea frá Man. United síðasta sumar. Í lánssamningnum var kveðið á um að Chelsea þyrfti að kaupa hann á 20 til 25 milljónir punda hafni liðið ofar en í 14. sæti í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Chelsea er í fjórða sæti sem stendur og ekki útlit fyrir annað en að liðið verði ofar en í 14. sæti að tímabilinu loknu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að ákvæði sé í samningnum um að Chelsea þurfi að greiða Man. United bætur upp á ofangreinda upphæð vilji félagið sleppa við að kaupa Sancho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert