Fær grænt ljós eftir tæklinguna hræðilegu

Jean-Philippe Mateta þurfti súrefni eftir tæklinguna ljótu.
Jean-Philippe Mateta þurfti súrefni eftir tæklinguna ljótu. AFP/Glyn Kirk

Franski knattspyrnumaðurinn Jean-Philippe Mateta, sóknarmaður Crystal Palace, hefur fengið grænt ljós frá læknum til að snúa aftur á völlinn í kjölfar þess að hafa meiðst illa eftir hræðilega tæklingu Liam Roberts, markvarðar Millwall, í bikarleik liðanna.

Mateta fékk djúpan skurð við vinstra eyrað og þurfti að sauma 25 spor. Roberts fékk rautt spjald eftir aðkomu VAR-dómara og var svo úrskurðaður í sex leikja bann fyrir brotið grófa.

Atvikið átti sér stað í byrjun mánaðarins þegar Palace sló Millwall úr leik í ensku bikarkeppninni og má franski sóknarmaðurinn snúa aftur þegar liðið mætir nágrönnum sínum í Fulham í átta liða úrslitum keppninnar næstkomandi laugardag.

Sky Sports greinir frá því að Mateta þurfi að spila með sérstaka grímu á meðan sárið við eyrað grær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert