„Ég er ekki skakkur, ég fæddist bara svona!“

Dean Huijsen er rólyndisdrengur.
Dean Huijsen er rólyndisdrengur. Ljósmynd/Bournemouth

Dean Huijsen, miðvörður Bournemouth og spænska landsliðsins í knattspyrnu, hafnar því alfarið að hann reyki maríjúana. Fas Huijsen og útlit sé einfaldlega afslappað.

Hann var gestur í hlaðvarpsþættinum Papa Pincus á dögunum. Þar var Huijsen spurður hreint út hvort hann reyki gras.

„Gott og vel, fyrir alla sem eru að horfa þá er ég með syfjuleg augu. Ég hef það frá mömmu minni því hún er með syfjuleg augu. Ég er ekki skakkur.

Mér þykir fyrir því en ég er ekki skakkur. Það er ekki leyfilegt fyrir okkur að reykja gras, það er lyfjaeftirlit. Ég er ekki skakkur, ég fæddist svona og get ekki gert neitt í því!“ svaraði Huijsen.

Þáttastjórnandinn minntist þá á ljósmynd af honum þar sem Huijsen er nokkuð rauðeygður eftir að hafa verið kjörinn maður leiksins eftir leik með Bournemouth.

„Ég fékk boltann í augað. Einhver tók skot og boltinn fór beint í augað á mér. Þannig að þetta leit enn verr út,“ sagði Huijsen, sem er landsliðsmaður Spánar en fæddist í Amsterdam í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert