Alan Smith, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í knattspyrnu, kom Trent Alexander-Arnold til varnar en sá síðarnefndi er mjög sennilega á förum frá Liverpool til spænska stórveldisins Real Madrid í sumar.
Samningur Alexanders-Arnolds hjá Liverpool rennur út í sumar og mun hann skrifa undir samning við Real Madrid áður en yfirstandandi tímabili lýkur.
Frá þessu segja enskir miðlar, meðal annars SkySports, en Alan Smith var spurður út í félagaskiptin af miðlinum.
„Ég held að við vissum allir að hann væri á leiðinni til Real Madrid, og hver getur dæmt hann fyrir það?
Hann hefur unnið bikara hjá uppeldisfélagi sínu og ef þú færð tækifæri til að spila fyrir Real Madrid, þá verður þú að grípa það,“ sagði Smith.