Brasilíski knattspyrnumaðurinn Danilo kveðst hafa verið heilaþveginn af Pep Guardiola þegar hann lék með Manchester City frá 2017 til 2019, en að það hafi reynst jákvætt.
Danilo leikur nú með Flamengo í heimalandinu eftir að hafa leikið með Juventus á Ítalíu í fimm og hálft ár.
„Pep Guardiola kennir leikmönnum sínum. Það er það mikilvægasta við hans vinnu. Hann lætur alla leikmenn sína hugsa um fótbolta á sama hátt.
Hann lætur þig skilja svæðin á vellinum betur en nokkur annar þjálfari. Hann lifir sig tilfinningalega inn í leikinn meira en nokkur annar þjálfari. Ég var heilaþveginn af Guardiola en á góðan hátt.
Það var eins og ég væri í háskóla. Ég var enginn hálfviti þegar ég kom til Manchester City en ég áttaði mig á því að ég væri að spila fótbolta með alröngum hætti.
Hefði ég hitt hann fyrr hefði það auðveldað mér lífið mikið. Ég er svo ánægður með að hafa spilað undir hans stjórn og að hafa fengið að læra af honum,“ sagði Danilo í samtali við The Guardian.