Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah á nú í viðræðum við forráðamenn Liverpool um nýjan samning.
Það er egypski miðillinn Masrawy sem greinir frá þessu en Salah, sem er 32 ára gamall, verður samningslaus í sumar og getur þá yfirgefið félagið á frjálsri sölu.
Lítið hefur komið út úr samningaviðræðum félagsins og Salah í allan vetur en nú virðast hlutirnir loksins vera að þokast í rétt átt, að því er fram kemur í frétt Masrawy.
Salah gekk til liðs við Liverpool frá Roma, sumarið 2017, fyrir 37 milljónir punda en hann hefur farið á kostum í Bítlaborginni.
Hann hefur skorað 27 mörk í 29 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, ásamt því að leggja upp 17 mörk. Alls eru mörkin 32 á tímabilinu en hann hefur skorað 243 mörk í 392 leikjum fyrir Liverpool.