Forráðamenn knattspyrnuliðs Real Madrid á Spáni hafa sett sig í samband við Martín Zubimendi, miðjumann Real Sociedad, með það fyrir augum að semja við leikmanninn í sumar.
Það er spænski fjölmiðlamaðurinn Juanma Castano sem greinir frá þessu en hann heldur úti einum vinsælum útvarpsþætti á Spáni.
Zubimendi hefur verið sterklega orðaður við Arsenal og var talið næsta víst að hann myndi ganga til liðs við enska félagið í sumar.
Forráðamenn Real Madrid hafa nú blandað sér í baráttuna um miðjumanninn og eru sagðir tilbúnir að virkja klásúlu í samningi leikmannsins sem hljóðar upp á 60 milljónir evra.
Zubamendi var sterklega orðaður við Liverpool síðasta sumar en ákvað að endingu að halda kyrru fyrir á Spáni.