Nottingham Forest tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum enska bikarsins í fótbolta með útisigri á Brighton.
Réðust úrslitin í vítakeppni en staðan eftir framlengingu og venjulegan leiktíma var markalaus.
Liðunum tókst loksins að skora í vítakeppninni og fór svo að Forest skoraði úr fjórum vítum gegn þremur hjá Brighton.
Crystal Palace tryggði sér fyrr í dag sæti í undanúrslitum. Á morgun fara fram seinni tveir leikir átta liða úrslitanna; Preston – Aston Villa og Bournemouth – Manchester City. Stefán Teitur Þórðarson leikur með Preston.