Ekki undrandi á árangri Forest

Nuno Espirito Santo á góða möguleika á að koma Nottingham …
Nuno Espirito Santo á góða möguleika á að koma Nottingham Forest í Meistaradeildina. AFP/Paul Ellis

Nottingham Forest hefur komið liða mest á óvart í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vetur og stendur vel að vígi í þriðja  sætinu þegar níu umferðum er ólokið.

Forest fær Manchester United í heimsókn annað kvöld en Portúgalinn Ruben Amorim, knattspyrnustjóri United, segir að árangur Forest í vetur komi sér ekki á óvart.

Hann sagðist á fréttamannafundi í dag þekkja vel landa sinn Nuno Espirito Santo, stjóra Forest, og vita hvers hann væri megnugur.

„Árangur Forest kemur mér alls ekki á óvart því ég veit hvaða árangri Nuno náði í Portúgal og á Spáni, og að hann stóð sig vel hérna með Wolves. Hann fór líka vel af stað með Tottenham.

Ég veit að hann er stjóri í fremsta gæðaflokki og það sést á liðinu hjá honum. Þegar þú sérð lið hans spila er orkan í liðinu augljós. Leikmennirnir eru ánægðir og þeir hafa mikið svigrúm. Þetta kemur mér ekkert á óvart," sagði Amorim.

Manchester United er í þrettánda sæti deildarinnar, sautján stigum á eftir Forest fyrir viðureign liðanna á City Ground annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert