Norski knattspyrnumaðurinn Erling Haaland fór meiddur af velli í gær þegar Manchester City vann Bournemouth, 2:1, í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.
Haaland skoraði þar jöfnunarmark City á 49. mínútu leiksins, eftir að hafa mistekist að skora úr vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum.
Hann fór síðan meiddur af velli á 61. mínútu og í stað hans kom Omar Marmoush sem skoraði sigurmark City tveimur mínútum síðar.
Haaland lenti í návígi við Lewis Cook og varð fyrir meiðslum á ökkla. Þau virtust ekki alvarleg að sjá en eftir leik mátti sjá Norðmanninn yfirgefa leikvanginn á hækjum og í sérstöku hlífðarstígvéli á vinstri fætinum.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, kvaðst ekkert vita um stöðuna á framherjanum þegar hann ræddi við fréttamenn eftir leikinn.
Haaland hefur skorað 30 mörk í öllum mótum fyrir City í vetur og er næstmarkahæstur í úrvalsdeildinni með 21 mark, sex mörkum á eftir Mohamed Salah hjá Liverpool.