Rekið með tapi sjöunda árið í röð

Bramley Moore Dock-leikvangurinn er glæsilegur og rúmar 53 þúsund manns …
Bramley Moore Dock-leikvangurinn er glæsilegur og rúmar 53 þúsund manns en hefur kostað Everton dágóðan pening. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnufélagið Everton var rekið með tapi sjöunda tímabilið í röð, 2023-2024, en félagið skýrði frá þessu í dag.

Taprekstur tímabilsins nam 53 milljónum punda, rúmum 9 milljörðum íslenskra króna, og þar með nemur heildartaprekstur síðustu sjö ára samtals 570 milljónum punda, eða ríflega 97 milljörðum íslenskra króna.

Everton var svipt átta stigum í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili í kjölfarið á þremur taprekstrarárum í röð þar á undan, en fékk hins vegar í byrjun þessa árs staðfestingu frá úrvalsdeildinni um að félaginu yrði ekki refsað fyrir tímabilið 2023-24. 

Ástæðan er sú að heimilt er að draga fjárfestingar í innviðum félagsins og kostnað við rekstur unglinga- og kvennaliða frá heildartölunni.

Stóran hluta taprekstursins má rekja til byggingar á nýjum og glæsilegum leikvangi félagsins á hafnarsvæðinu Bramley-Moore í Liverpool en þangað flytur félagið frá Goodison Park í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert