Sjúkralistinn hjá enska liðinu Manchester United hefur minnkað aðeins en Ruben Amorim knattspyrnustjóri skýrði frá því á fréttamannafundi í dag að tveir varnarmenn myndu snúa aftur eftir meiðsli á morgun.
United mætir þá Nottingham Forest á útivelli í úrvalsdeildinni og þeir Harry Maguire og Leny Yoro hafa jafnað sig af meiðslum og eru tilbúnir í leikinn.
Varnarmennirnir Luke Shaw, Jonny Evans, Ayden Heaven og Lisandro Martínez eru allir áfram fjarverandi vegna meiðsla.
Manchester United er í þrettánda sæti deildarinnar með 37 stig og á erfiðan útileik fyrir höndum en Nottingham Forest er með 54 stig í þriðja sætinu og í góðri stöðu í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu.