Norðmaðurinn Erling Haaland, framherji Englandsmeistara Manchester City í knattspyrnu, verður frá í fimm til sjö vikur.
Þetta sagði Pep Guardiola stjóri City á blaðamannafundi í dag en Haaland meiddist á ökkla í sigri City á Bournemouth, 2:1, í átta liða úrslitum enska bikarsins í Bournemouth síðasta sunnudag.
Hann yfirgaf völlinn á hækjum og mun nú missa af að minnsta kosti öllum apríl.
Haaland mun missa af mikilvægum leikjum City í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð og undanúrslitaleiknum gegn Nottingham Forest í enska bikarnum undir lok mánaðar.
Manchester City fær Leicester í heimsókn annað kvöld.