Arsenal hafði betur gegn Fulham, 2:1, í 30. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í London í kvöld.
Arsenal er komið með 61 stig í öðru sæti, níu stigum á eftir toppliði Liverpool sem á leik til góða. Fulham er í áttunda sæti með 45.
Arsenal heimsækir Everton í næstu umferð en Fulham fær Liverpool í heimsókn.
Arsenal varð fyrir þó nokkru áfalli snemma í leiknum þegar miðvörður og lykilmaður liðsins Gabriel meiddist og þurfti að fara af velli. Arsenal á leik gegn Evrópumeisturum Real Madrid eftir nákvæmlega viku og er líklegt að Gabriel missi af honum.
Mikel Merino kom Arsenal yfir á 37. mínútu. Þá fékk hann sendingu frá Ethan Nwaneri og setti boltann í netið eftir viðkomu í Jorge Cuenca, 1:0.
Á 66. mínútu sneri Bukayo Saka aftur á völlinn eftir meiri en þriggja mánaða fjarveru. Hann kom inn á við mikið lófaklapp stuðningsmanna Arsenal og það tók hann aðeins sjö mínútur að skora.
Þá keyrði Gabriel Martinelli upp völlinn og sendi á Merino sem gaf hann fyrir aftur á Martinelli sem framlengdi boltanum með hælnum á Saka sem stangaði hann inn, 2:0, og draumaendurkoma staðreynd.
Rodrigo Muniz minnkaði muninn fyrir Fulham í blálokin en það reyndist of seint, 2:1.