Leikmenn karlaliðs Sheffield Wednesday í knattspyrnu fengu ekki laun sín greidd í marsmánuði vegna sjóðstreymisvandamála eigandans Dejphon Chansiri.
Í tilkynningu frá félaginu segir að um tímabundið vandamál sé að ræða vegna skulda sem Chansiri hefur sjálfur ekki fengið greiddar.
„Þetta kemur til vegna hárra fjárhæða sem fyrirtækjum stjórnarformannsins er skuldað og hefur þar með haft áhrif á sjóðstreymi félagsins á þessari stundu.
Stjórnarformaðurinn vinnur nú hörðum höndum að því að greiða sem fyrst úr þessari flækju og þakkar öllum fyrir þolinmæðina og skilninginn,“ sagði meðal annars í tilkynningunni.
Chansiri, sem er 56 ára kaupsýslumaður frá Taílandi, er ekki vinsæll á meðal stuðningsmanna félagsins þar sem hann hefur áður lent í fjárhagsvandræðum í stjórnartíð sinni.
Í október árið 2023 fór Chansiri þess á leit við stuðningsmenn að þeir söfnuðu fjárhæð upp á tvær milljónir punda svo félaginu yrði kleift að greiða skuld sína við skattinn og laun leik- og starfsmanna.
Á leikjum liðsins í ensku B-deildinni á tímabilinu hafa stuðningsmenn mótmælt eigendatíð Chansiri.