Nottingham Forest vann dramatískan 1:0-sigur gegn Manchester United í 30. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.
Forest er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 57 stig en United situr í 13. sæti með 37 stig.
Leikurinn fór af stað með látum en strax á fjórðu mínútu komust heimamenn yfir. Það kom eftir skyndisókn þar sem Svíinn Anthony Elanga keyrði frá sínum eigin vallarhelming að teig United og lagði boltann í hægra hornið, 1:0.
United var hættulegri aðilinn í fyrri hálfleik og var töluvert meira með boltann.
Diogo Dalot var nálægt því að jafna metin á 28. mínútu þegar hann átti skalla í slána eftir hornspyrnu. Samherji hans Matthjis de Ligt náði frákastinu en Matz Sels varði laust skot hans.
Staðan í hálfleik 1:0, Nottingham Forest í vil.
Síðari hálfleikur var töluvert rólegri en sá fyrri. Heimamenn voru þéttir fyrir og átti United í erfiðleikum með að skapa sér færi.
Mikil hætta skapaðist þegar Harry Maguire kom inn á í framlínu United. Hann var tvívegis nálægt því að jafna metin.
Á 90. mínútu átti Maguire skalla rétt framhjá markinu eftir góðan undirbúning frá Dananum Patrick Dorgu. Á síðustu mínútu uppbótartíma bjargaði varnarmaðurinn Murillo á línu frá Maguire.
Lokaniðurstaðan því 1:0-sigur heimamanna.