Arsenal varð fyrir áfalli í kvöld er varnarmaðurinn Gabriel Magalhães fór meiddur af velli strax á 16. mínútu í leik liðsins við Fulham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Settist Gabriel í grasið þegar boltinn var hvergi nærri og þurfti síðan að fara af velli. Er um afar slæmar fréttir fyrir Arsenal að ræða, enda Gabriel lykilmaður í vörn liðsins.
Þá koma meiðslin á versta tíma, því enska liðið mætir Evrópumeisturum Real Madríd í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar síðar í mánuðinum.
Fyrri leikurinn verður á heimavelli 8. apríl og sá seinni 16. apríl.