Mikel Arteta, knattspyrnustjóri karlaliðs Arsenal, hrósaði Bukayo Saka í hástert á blaðamannafundi eftir sigur Arsenal á Fulham, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í Norður-Lundúnum í gærkvöldi.
Saka kom inn á 66. mínútu eftir meira en þriggja mánaða fjarveru frá vellinum vegna alvarlegra meiðsla. Það tók leikmanninn aðeins sjö mínútur að skora.
Saka hljóp til sjúkraþjálfara liðsins eftir að hann skoraði og faðmaði hann, nokkuð sem Arteta var mjög ánægður með.
„Besta dæmið eru viðbrögð Bukayo. Eftir að hann skorar, hvað gerir hann? Fer til sjúkraþjálfaranna, og þakkar þeim fyrir allt.
Hann sameinar liðið og aðdáendur,“ sagði Arteta.