Liverpool er komið með tólf stiga forystu á ný í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir sigur á Everton í grannaslag á Anfield í kvöld, 1:0.
Liverpool er þá með 73 stig gegn 61 stigi hjá Arsenal þegar átta umferðum er ólokið. Everton er áfram í fimmtánda sæti með 34 stig og tapaði í fyrsta skipti í tíu leikjum í deildinni.
Beto fékk besta færi fyrri hálfleiks fyrir Everton á 33. mínútu þegar hann slapp inn fyrir vörn Liverpool í skyndisókn en skaut í stöng og út.
Liverpool sótti mun meira í fyrri hálfleiknum en skapaði sér fá færi gegn vel skipulögðum og baráttuglöðum leikmönnum Everton.
Jordan Pickford í marki Everton þurfti í fyrsta sinn að taka vel á því á 53. mínútu þegar hann varði hörkuskot frá Ryan Gravenberch.
Liverpool náði forystunni á 57. mínútu þegar Diogo Jota skoraði af miklu harðfylgi úr miðjum vítateig eftir að hafa fengið hælsendingu frá Luis Díaz, 1:0.
Díaz var nálægt því að bæta við öðru marki Liverpool á 82. mínútu en James Tarkowski og Jordan Pickford komust í sameiningu fyrir skoti í markteignum.
Liverpool var mun sterkari aðilinn allan síðari hálfleikinn og Everton skapaði sér ekki teljandi færi til að jafna metin.