Gabriel Martinelli segir að Arsenal ætli sér að reyna að vinna ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu eftir sigur liðsins á Fulham, 2:1, í Norður-Lundúnum í gærkvöldi.
Martinelli átti einn sinn besta leik í langan tíma en hann lagði upp annað mark Arsenal, sem Bukayo Saka skoraði í endurkomu sinni.
Martinelli er kokhraustur og segir að Arsenal ætli að vinna ensku úrvalsdeildina, þrátt fyrir að Arsenal sé níu stigum á eftir Liverpool sem á einnig leik til góða.
„Við ætlum að reyna að vinna ensku úrvalsdeildina. Svo er einnig stórleikur fram undan gegn Real Madrid, við ætlum að reyna að vinna leiki og bikara,“ sagði Martinelli við breska ríkisútvarpið.