Chelsea lagði Tottenham, 1:0, í lokaleik 30. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar karla í knattspyrnu í kvöld.
Með sigrinum fer Chelsea upp í fjórða sætið með 52 stig. Tottenham er áfram í 14. sæti með 34 stig.
Strax á fyrstu mínútu leiksins slapp Nicolas Jackson, framherji Chelsea, í gegn en Guglielmo Vicario, markvörður Tottenham, varði frá honum. Í kjölfarið hreinsaði Micky van de Ven boltann í Jackson og þaðan í stöngina.
Leikurinn róaðist í kjölfarið. Chelsea var meira með boltann og komst í álitlegar stöður en tókst ekki að reka smiðshöggið á þær sóknir.
Vicario varði stórkostlega frá Jadon Sancho á 45. mínútu leiksins eftir góða sendingu frá Pedro Neto. Staðan var markalaus í hálfleik.
Það dró til tíðinda á 50. mínútu þegar Argentínumaðurinn Enzo Fernandez kom Chelsea yfir. Það kom eftir fyrirgjöf frá Cole Palmer sem rataði á Fernandez sem stangaði boltann í netið, 1:0.
Skömmu síðar skoraði Moises Caicedo annað mark Chelsea en eftir langa VAR-skoðun kom í ljós að Levi Colwill var rangstæður í aðdragandanum og markið því ekki gilt.
Varamaðurinn Pape Sarr jafnaði metin fyrir Tottenham á 69. mínútu eftir svakalegt skot af um 30 metra færi. Hins vegar var markið dæmt af þegar kom í ljós í VAR-skoðun að Sarr braut á Caicedo í aðdraganda marksins.
Heung-Min Son fékk gott færi til að jafna metin undir lok leiksins eftir undirbúning frá Brennan Johnson en Robert Sanchez gerði frábærlega í því að verja frá honum.
Nær komst Tottenham ekki og lokaniðurstaða því 1:0-sigur Chelsea.