Franski markvörðurinn Illan Meslier stendur ekki á milli stanganna hjá Leeds er liðið mætir Luton í ensku B-deildinni í fótbolta á laugardag.
Meslier gerði sig sekan um tvö slæm mistök er Leeds gerði jafntefli við Swansea síðastliðinn laugardag, 2:2. Mistökin kostuðu Leeds tvö mörk og í leiðinni tvö stig í baráttunni um eitt af tveimur efstu sætum deildarinnar og sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Sá franski hefur spilað alla leiki Leeds í B-deildinni til þessa. Walesverjinn Karl Darlow mun verja mark liðsins á laugardag en hann kom til Leeds frá Newcastle árið 2023.
Sheffield United er í toppsæti deildarinnar með 83 stig, Leeds í öðru með 81 stig og Burnley í þriðja, einnig með 81 stig, þegar sjö umferðir eru eftir.