Moyes og Slot ósammála

David Moyes og Arne Slot heilsast fyrir leikinn á Anfield …
David Moyes og Arne Slot heilsast fyrir leikinn á Anfield í gærkvöldi. AFP/Paul Ellis

David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, og Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, voru ósammála um lögmæti sigurmarks Liverpool í 1:0-sigri í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Diogo Jota skoraði eftir sendingu Luis Díaz, sem hafði stuttu áður staðið fyrir innan áður en James Tarkowski hreinsaði boltanum frá.

„Þeir skoruðu rangstöðumark sem þeir fengu dæmt gilt, sem skildi á milli í leiknum í kvöld. Mér finnst leikmaðurinn fyrir aftan Tarkowski trufla hann þegar hann hreinsar frá.

Þetta er augljós rangstaða og mér finnst sem þetta ætti að vera mjög auðveld ákvörðun að taka. Mér dettur engin ástæða í hug fyrir því að þetta sé ekki rangstaða, ekki nein,“ sagði Moyes í samtali við Sky Sports eftir leikinn.

„Ég held að það séu ekki margir stjórar sem koma hingað haldandi það að þeir fái margar ákvarðanir með sér á Anfield. Það er mín skoðun. Þetta er ein sem er ansi auðveld. Það er mjög auðvelt að dæma rangstöðu,“ bætti hann við á fréttamannafundi.

Mark samkvæmt reglunum

Slot var á öndverðum meiði og vísaði til reglnanna, þar sem Díaz stóð einungis fyrir innan en gerði enga tilraun til að leika knettinum.

„Samkvæmt reglunum var þetta mark þannig að það getur enginn kvartað yfir því. Það eru alltaf spurningamerki en það góða er að við erum með reglur. Reglurnar segja okkur, að minnsta kosti sýndu þeir okkur það í sjónvarpinu, að þetta er augljóslega löglegt mark.

Ég væri pirraður ef ég fengi svona mark á mig en þá er ég pirraður út í regluna og ekki framkvæmdina á henni því dómarinn gerði það fullkomlega. Reglan sjálf er pirrandi að mínu mati því það verður alltaf að hjálpa sóknarliðinu,“ sagði Slot við Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert