Fordæma líflátshótanir í garð Tarkowski

James Tarkowski fékk gult spjald fyrir skelfilega tæklingu og hefur …
James Tarkowski fékk gult spjald fyrir skelfilega tæklingu og hefur fengið líflátshótanir í kjölfarið. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnufélagið Everton fordæmir líflátshótanir í garð James Tarkowski, varafyrirliða karlaliðsins, og fjölskyldu hans eftir leik liðsins gegn Liverpool á miðvikudagskvöld.

Tarkowski tæklaði Alexis Mac Allister illa snemma leiks, fékk fyrir vikið gult spjald en PGMOL, samtök atvinnudómara á Englandi, gáfu það út eftir leikinn að miðvörðurinn hefði átt að fá beint rautt spjald fyrir grófan leik. Eftir leikinn bárust Tarkowski og eiginkonu hans ljót skilaboð.

„Everton er kunnugt um hótanir í garð James Tarkowski og fjölskyldu hans á samfélagsmiðlum. Slík hegðun er með öllu óásættanleg og á ekki rétt á sér innan knattspyrnunnar eða samfélagsins.

Félagið stendur með James og eiginkonu hans Samönthu og er reiðubúið að hjálpa samfélagsmiðlafyrirtækjunum og aðstoða lögregluna við hvaða rannsóknir sem kunna að verða settar á fót.

Everton fordæmir harðlega allar tegundir hótana á netinu eða í persónu, níð í garð leikmanna, starfsfólks og fjölskyldna þeirra,“ sagði í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert