Everton og Arsenal gerðu jafntefli, 1:1, í fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park í Liverpool í dag.
Arsenal er í öðru sæti deildarinnar með 62 stig en Everton er í 14. með 35 stig.
Leandro Trossard kom Arsenal yfir á 34. mínútu leiksins. Þá keyrði Raheem Sterling upp völlinn og kom boltanum á Trossard sem kláraði færið listilega, 0:1.
Arsenal-liðið byrjaði seinni hálfleikinn brösuglega og á 47. mínútu fékk Everton víti. Þá braut Myles Lewis-Skelly á Jack Harrison og Darren England dómari benti á punktinn.
Brotið byrjaði utan teigs og voru leikmennirnir tveir að rífa í hvorn annan en eftir athugun í VAR-sjánni stóð dómurinn.
Á punktinn steig Iliman Ndiaye og skoraði af öryggi, 1:1.
Arsenal fékk nokkur góð tækifæri til að skora annað mark en allt varð fyrir ekki og enduðu leikar því jafnir, 1:1.
Arsenal fær Real Madrid í heimsókn í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar næsta þriðjudagskvöld.
Næsti leikur Everton er gegn Nottingham Forest á útivelli næstu helgi.