Fulham sigraði Liverpool 3:2 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en leikurinn fór fram á Craven Cottage í London.
Með sigrinum er Fulham komið í áttunda sæti deildarinnar með 48 stig. Liverpool er áfram á toppi deildarinnar en liðið er með 11 stiga forystu á Arsenal en hefði getað aukið forystu sína í 14 stig en það tókst ekki.
Þetta er aðeins annar ósigur Liverpool í deildinni á tímabilinu og liðið þarf ellefu stig úr síðustu sjö leikjunum til að gulltryggja sér meistaratitilinn.
Þetta byrjaði reyndar mjög vel hjá Liverpool í dag en strax á 14. mínútu leiksins þá fékk Alexis Mac Allister boltann rétt við miðlínuna og tók sprettinn upp völlinn og lét vaða rétt fyrir utan teiginn og skot hans söng í netinu. Virkilega glæsilegt mark hjá Mac Allister og staðan 1:0 fyrir Liverpool.
Heimamenn sem höfðu byrjað leikinn betur létu þetta ekki trufla sig og voru fljótir að jafna metin en jöfnunarmarkið kom á 23. mínútu. Andreas Pereira átti þá góða sending fyrir mark Liverpool en boltinn fór í Curtis Jones sem misreiknaði eitthvað svifið á boltanum og þaðan fór boltinn beint til Ryan Sessegnon sem negldi boltanum í netið og allt orðið jafnt á Craven Cottage, 1:1.
Bæði lið voru svolítið í því að gefa boltann frá sér á klaufanlega hátt og það var einmitt það sem gerðist í öðru marki Fulham en þá átti Andy Robertson hræðilega sendingu sem rataði beint á Alex Iwobi og hann lét vaða á markið en Virgil van Dijk náði að komast fyrir skotið en Iwobi fékk boltann aftur og reyndi aftur skot og í þetta sinn fór boltinn í Andy Robertson og inn og heimamenn því komnir í 2:1 eftir 32. mínútna leik.
Á 37. mínútu leiksins fékk Fulham hornspyrnu sem Andreas Pereira tók. Hann setti boltann inn á teig Liverpool og þar var það van Dijk sem skallaði boltann frá en boltinn datt beint á Alex Iwobi sem setti boltann hátt upp í loftið og á undraverðan hátt náði Rodrigo Muniz að taka boltann niður og tekur skemmtilegan snúning og er allt í einu kominn einn á móti Kelleher, markmanni Liverpool, og setur hann í netið. Staðan í hálfleik var því 3:1 fyrir Fulham.
Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn betur en strax á 48. mínútu fékk Diogo Jota mjög gott færi til að minnka muninn en Bernd Leno varði mjög vel frá honum af stuttu færi.
Liverpool var mun meira með boltann í seinni hálfleik en það var ekki fyrr en Arne Slot breytti liði sínu og setti meðal annars Luis Diaz inn á að hlutir fóru að gerast hjá Liverpool.
Það var einmitt Luis Diaz sem minnkaði muninn fyrir Liverpool á 72. mínútu eftir sendingu frá öðrum varamanni, Conor Bradley, 3:2.
Á 79. mínútu átti Andy Robertson fína sendingu fyrir mark Fulham og boltinn barst á Harvey Elliott og hann átti hörkuskot með boltinn fór í þverslána. Bernd Leno varði tvívegis vel í uppbótartíma, fyrst frá Federico Chiesa og svo frá Harvey Elliott. Heimamenn héldu út og höfðu að lokum 3:2 sigur í þessum skemmtilega leik.
Næsti leikur Fulham er gegn Bournemouth á útivelli en Liverpool á heimaleik um næstu helgi gegn West Ham.