Southampton féll í dag úr ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir ósigur gegn Tottenham Hotspur í London, 3:1, og samt á liðið enn eftir sjö leiki á tímabilinu.
Southampton er aðeins með 10 stig eftir 31 leik og er 22 stigum á eftir Wolves sem er með 32 stig í 17. sæti deildarinnar. Dýrlingarnir geta mest náð 31 stigi héðan af.
Brennan Johnson skoraði tvívegis fyrir Tottenham, á 13. og 42. mínútu, eftir sendingar frá Djed Spence og James Maddison. Mateus Fernandes minnkaði muninn fyrir Southampton í uppbótartíma leiksins.
Tottenham fékk síðan vítaspyrnu í blálokin. Mathys Tel skoraði úr henni og innsiglaði sigurinn.
Tottenham lyfti sér upp fyrir Manchester United, Everton og West Ham og upp í 13. sæti deildarinnar með 37 stig.
Southampton hefur nú það eina markmið að forðast að sitja uppi með slakasta árangur í sögu deildarinnar en Derby fékk 11 stig tímabilið 2007-2008.
Brentford og Chelsea gerðu markalaust jafntefli í nágrannaslag í Vestur-London og Hákon Rafn Valdimarsson landsliðsmarkvörður var að vanda á varamannabekk Brentford.
Chelsea er með 53 stig í fjórða sæti og getur nú misst Manchester City upp fyrir sig síðar í dag í harðri baráttunni um sæti í Meistaradeildinni.
Brentford er áfram í 12. sæti deildarinnar og nú með 42 stig.