Manchester United og Manchester City skildu jöfn, 0:0, í nágrannaslag í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld.
City situr í fimmta sæti deildarinnar með 52 stig en United er í 13. sæti með 38 stig.
Heimamenn voru hættulegri þrátt fyrir að vera minna með boltann. United-menn voru þéttir fyrir og skipulagðir, leyfðu City að halda í boltann og beittu síðan skyndisóknum sem skapaði oft mikla hættu.
Alejandro Garnacho fékk besta færi fyrri hálfleiksins eftir góða fyrirgjöf frá Diogo Dalot en Argentínumaðurinn misreiknaði boltann og náði ekki að skalla hann.
Markalaust í hálfleik.
Líkt og fyrri hálfleikurinn var sá seinni nokkuð rólegur. City-menn voru meira með boltann en náðu ekki að skapa sér færi.
Phil Foden fékk besta færi City snemma í síðari hálfleik. Boltinn hrökk fyrir Foden í teignum en hann var of lengi að athafna sig og náði Noussair Mazraoui að trufla skot Englendingsins sem fór framhjá markinu.
Besta færi United-manna í síðari hálfleik fékk Joshua Zirkzee þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir. Daninn Patrick Dorgu lagði boltann út á Zirkzee sem skaut en Ederson varði vel frá honum.
Fleira markvert gerðist ekki og lokaniðurstaða því markalaust jafntefli.