Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur boðið fyrrverandi stjóra sínum Jürgen Klopp á lokaleik liðsins á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni gegn Crystal Palace 25. maí.
Hinn 57 ára gamli Klopp hefur enn ekki mætt á Anfield síðan hann hætti með Liverpool eftir átta og hálft ár í starfi í maí á síðasta ári.
Klopp verður viðstaddur kvöldverð fyrir stuðningsmenn í dómkirkjunni í Liverpool tveimur dögum fyrr. Ekki er þó víst hvort Þjóðverjinn samþykki einnig að mæta á leikinn.
„Við sjáum til. Ég vildi ekki mæta fyrr, því ég var hræddur um að ég kæmi með ógæfu. Það er líklegra að ég mæti ef titillinn er í höfn,“ sagði Klopp á góðgerðasamkomu í Suður-Afríku á dögunum.