Cantona hraunar yfir Ratcliffe

Eric Cantona og Sir Alex Ferguson á góðri stundu.
Eric Cantona og Sir Alex Ferguson á góðri stundu. AFP/Andrew Yates

Fyrr­ver­andi knatt­spyrnumaður­inn Eric Cant­ona vand­ar Sir Jim Ratclif­fe, minni­hluta­eig­anda hjá Manchester United sem stjórn­ar dag­leg­um rekstri enska fé­lags­ins, ekki kveðjurn­ar.

Cant­ona, sem lék með United frá 1992 til 1997 við afar góðan orðstír, er ekki hrif­inn af stjórn­un­ar­hátt­um Ratclif­fes sem hef­ur gripið til ým­issa ráðstaf­ana til þess að skera niður kostnað hjá fé­lag­inu.

„Allt frá því að Ratclif­fe kom til skjal­anna hef­ur þetta stjórn­endat­eymi reynt að rústa öllu og þeir virða eng­an. Ég er dap­ur yfir því að sjá United í svona aðstæðum.

Þeir ákváðu að gera eitt­hvað öðru­vísi. Þeir eru með öðru­vísi stefnu, öðru­vísi verk­efni. Ég styð United því ég elska United.

En ef ég væri stuðnings­maður í dag og þyrfti að velja mér lið held ég að ég myndi ekki velja United,“ sagði Cant­ona á viðburði FC United, knatt­spyrnu­fé­lags sem var stofnað í mót­mæla­skyni við banda­rísku Glazer-fjöl­skyld­una, sem á meiri­hluta í United.

Sir Jim Ratcliffe.
Sir Jim Ratclif­fe. AFP/​Daniel Leal

Vill ekki hafa Sir Alex leng­ur

Frakk­inn gagn­rýndi einnig þá ákvörðun að leggja af sér­staka sendi­herra­stöðu Sir Alex Fergu­sons, fyrr­ver­andi knatt­spyrn­u­stjóra.

„United þarf að finna sál­ina sína aft­ur. Hann [Ratclif­fe] vill ekki hafa Sir Alex Fergu­son leng­ur sem sendi­herra. Hann er annað og meira en goðsögn. Sál­in í liðinu og fé­lag­inu ligg­ur ekki hjá leik­mönn­un­um.

Allt fólkið í kring­um fé­lagið er eins og stór fjöl­skylda. Mér finnst mjög mik­il­vægt að virða þetta fólk með sama hætti og þú virðir knatt­spyrn­u­stjór­ann og liðsfé­laga,“ sagði Cant­ona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka