Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Eric Cantona vandar Sir Jim Ratcliffe, minnihlutaeiganda hjá Manchester United sem stjórnar daglegum rekstri enska félagsins, ekki kveðjurnar.
Cantona, sem lék með United frá 1992 til 1997 við afar góðan orðstír, er ekki hrifinn af stjórnunarháttum Ratcliffes sem hefur gripið til ýmissa ráðstafana til þess að skera niður kostnað hjá félaginu.
„Allt frá því að Ratcliffe kom til skjalanna hefur þetta stjórnendateymi reynt að rústa öllu og þeir virða engan. Ég er dapur yfir því að sjá United í svona aðstæðum.
Þeir ákváðu að gera eitthvað öðruvísi. Þeir eru með öðruvísi stefnu, öðruvísi verkefni. Ég styð United því ég elska United.
En ef ég væri stuðningsmaður í dag og þyrfti að velja mér lið held ég að ég myndi ekki velja United,“ sagði Cantona á viðburði FC United, knattspyrnufélags sem var stofnað í mótmælaskyni við bandarísku Glazer-fjölskylduna, sem á meirihluta í United.
Frakkinn gagnrýndi einnig þá ákvörðun að leggja af sérstaka sendiherrastöðu Sir Alex Fergusons, fyrrverandi knattspyrnustjóra.
„United þarf að finna sálina sína aftur. Hann [Ratcliffe] vill ekki hafa Sir Alex Ferguson lengur sem sendiherra. Hann er annað og meira en goðsögn. Sálin í liðinu og félaginu liggur ekki hjá leikmönnunum.
Allt fólkið í kringum félagið er eins og stór fjölskylda. Mér finnst mjög mikilvægt að virða þetta fólk með sama hætti og þú virðir knattspyrnustjórann og liðsfélaga,“ sagði Cantona.