Barcelona kaupir að öllum líkindum ekki kólumbíska knattspyrnumanninn Luis Díaz af Liverpool í sumar eftir að í ljós kom hvert kaupverðið yrði.
Þetta segir spænski íþróttafjölmiðillinn Sport en Díaz er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2027 og félagið er sagt vilja fá 65 milljónir punda fyrir hann, fari hann frá félaginu að þessu tímabili loknum.
Sport segir að þessi upphæð sé alltof há fyrir Barcelona en nú megi vænta þess að sádiarabísku félögin Al Ahli og Al Naddr reyni að fá kantmanninn öfluga í sínar raðir.
Díaz er 28 ára gamall og kom til Liverpool frá Porto í Portúgal í ársbyrjun 2022 fyrir 37,5 milljónir punda. Hann hefur á yfirstandandi tímabili skorað 14 mörk í öllum mótum og átt átta stoðsendingar.