Knattspyrnumennirnir Virgil van Dijk og Mo Salah, tveir af bestu leikmönnum Liverpool undanfarin ár, eru svo gott sem búnir að samþykkja nýjan samning hjá félaginu.
BBC greinir frá að varnarmaðurinn van Dijk og sóknarmaðurinn Salah muni skrifa undir tveggja ára samninga á allra næstu dögum.
Hafa þeir báðir átt í löngum samningaviðræðum við félagið og leit út á tímabili að þeir væru báðir á förum frá félaginu.
Nú er hins vegar breyting á og í frétt BBC kemur fram að eitthvað stórkostlegt þurfi að gerast til að þeir verði ekki báðir leikmenn enska félagsins næstu tvö árin.