Tyrkneska knattspyrnufélagið Galatasaray hyggst reyna að kaupa brasilíska markvörðinn Alisson Becker af Liverpool í sumar.
Tyrkneski fjölmiðillinn Sabah skýrir frá þessu í dag og segir að þar sem georgíski markvörðurinn Giorgi Mamardashvili komi til enska félagsins í sumar séu meiri möguleikar en áður að Liverpool sé tilbúið til að selja Alisson, sem er með samning til sumarsins 2027.
Alisson er 32 ára gamall og kom til Liverpool frá Roma fyrir sjö árum. Hann hefur spilað 222 úrvalsdeildarleiki fyrir félagið og samtals 291 mótsleik en Brasilíumaðurinn hefur verið talinn í hópi bestu markvarða heims undanfarin ár.