Egypski framherjinn Mohamed Salah hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Liverpool en frá þessu greinir félagið á heimasíðu sinni.
Fyrri samningur hans átti að renna út í sumar og síðustu mánuði hafa verið vangaveltur um að hann væri á leið til Sádi-Arabíu.
Salah, sem gekk í raðir Liverpool frá Roma árið 2017, hefur á þessum tíma skorað 243 mörk og lagt upp 109 í 394 leikjum fyrir félagið. Á þessu tímabili hefur hann skorað 32 mörk í öllum keppnum, þar af 27 í úrvalsdeildinni en Liverpool trónir á toppi deildarinnar og fátt sem getur komið í veg fyrir að liðið hampi 20. meistaratitlinum.
„Ég skrifaði undir vegna þess að ég tel að við eigum möguleika á að vinna fleiri titla og ég vil njóta fótboltans. Ég hef spilað átta ár hér, vonandi verða það tíu. Ég nýt lífsins hér, nýt þess að spila fótbolta. Ég hef átt bestu árin á ferlinum hér,“ sagði Salah eftir að hann skrifaði undir samninginn.
"I signed here because I believe we can win a lot of big trophies together" ✨
— Liverpool FC (@LFC) April 11, 2025
Head to LFCTV GO to watch Mo's brilliant interview in full 💻