Arsenal tók á móti Brentford í 32. umferð Ensku úrvalsdeildarinnar og lauk leiknum með 1:1 jafntefli.
Eftir leikinn er Arsenal í öðru sæti með 63 stig, tíu stigum á eftir Liverpool sem nálgast þar með enn enska meistaratitilinn. Úrslitin þýða að nú þarf Liverpool aðeins í mesta lagi níu stig í viðbót úr síðustu sjö leikjum sínum til að tryggja sér meistaratitilinn og mætir West Ham á Anfield á morgun. Brentford er í 11. sæti með 43.
Leikurinn fór ansi rólega af stað og gerðist ekkert markvert fyrstu 20 mínútur leiksins. Kristoffer Ajer fékk fyrsta alvöru færi leiksins þegar hann komst í fínt færi en skot hans slakt og varði David Raya auðveldlega.
Á 26. mínútu leiksins skoraði Arsenal mark sem var dæmt af. Þar var að verki Kieran Tierney sem skallaði boltann í netið en hann var rangstæður þegar boltinn kom fyrir markið.
Oleksandr Zinchenko kom sér í gott skotfæri á 33 mínútu en skot hans varði Mark Flekkan markvörður Brentford. Boltinn var þó á leiðinni framhjá.
Á 45. mínútu átti Leandro Trossard fast skot að marki Brentford en Mark Flekken kom í veg fyrir að Arsenal næði forystu.
Staðan í hálfleik 0:0.
Seinni hálfleikur byrjaði alveg jafn rólega og sá fyrri. Arsenal var mun meira með boltann en náði ekki að skapa sér neitt markvert framan af seinni hálfleik.
Thomas Partey skoraði fyrir Arsenal á 61. mínútu leiksins. Markið kom eftir skyndisókn þar sem David Raya handsamaði boltann eftir hornspyrnu Brentford. Hann kom boltanum strax á Declan Rice sem keyrði upp miðjan völlinn upp að vítateig gestanna, gaf boltann til hægri á Partey sem skaut föstu skoti að marki Brentford og fór boltinn yfir höfuð Mark Flekken. Staðan 1:0 fyrir Arsenal.
Arsenal gerði þrefalda skiptingu strax eftir markið og stuttu seinna gerðu þeir fjórðu skiptinguna þegar Thomas Partey fór af velli fyrir Jurrien Timber. Á sama tíma gerði Brentford tvöfalda skiptingu.
Brentford jafnaði leikinn á 74 mínútu leiksins þegar Yoane Wissa skoraði eftir sendingu frá Nathan Collins. Staðan 1:1.
Arsenal gerði sína fimmtu skiptingu þegar á 75. mínútu þegar Declan Rice fór af velli og Mikel Merino kom inn á. Það átti eftir að draga dilk á eftir sér fyrir Mikel Arteta því á 86. mínútu meiddist Jorginho og þurfti hann að fara af velli. Léku leikmenn Arsenal því manni færri það sem eftir lifði leiks.
Ekkert fleira markvert gerðist í leiknum og lauk hann með 1:1 jaftefli í heldur bragðdaufum leik á Emirates í London.