Wolves vann afar mikilvægan sigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, 4:2, og slökkti þar með í fallbaráttu deildarinnar. Á sama tíma þurfti Ipswich á sigri að halda en liðið gerði jafntefli við Chelsea, 2:2.
Rayan Ait Nouri kom Wolves yfir á 2. mínútu leiksins í dag, áður en Djed Spence varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark fyrir Tottenham á 38. mínútu. Úlfarnir leiddu því með tveimur mörkum í hálfleik.
Mathys Tel minnkaði muninn fyrir Tottenham á 59. mínútu en aðeins fimm mínútum síðar skoraði Jörgen Strand Larsen þriðja mark Úlfanna.
Richarlison hleypti spennu í leikinn með marki á 85. mínútu en Matheus Cunha slökkti í vonum Tottenham manna með marki aðeins mínútu síðar og innsiglaði hann þar með sigur Úlfanna.
Wolves er eftir leikinn í 16. sæti deildarinnar með 35 stig en Tottenham er aðeins sæti ofar með 37 stig.
Chelsea tók á móti Ipswich í Lundúnum í dag og endaði leikurinn með fjögurra marka jafntefli, 2:2.
Gestirnir komust í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik með mörkum frá Juliu Enciso og Ben Johnson.
Axel Tuanzebe varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og hleypti það mark Chelsea inn aftur inn í leikinn.
Heimamenn gengu á lagið og skoraði Jadon Sancho jöfnunarmark liðsins eftir undirbúning hjá Cole Palmer.
Chelsea þurfti nauðsynlega á sigri að halda í Meistaradeildarbaráttu sinni en liðið er nú í 5. sæti með 54 stig. Ipswich er hinsvegar í 18. sæti með 21 stig, fjórtan stigum frá öruggu sæti þegar aðeins átján stig eru í pottinum.