Manchester United tryggði sér sæti í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu kvenna með því að leggja nágranna sína í Manchester City að velli, 2:0, í undanúrslitum í gær.
Man. United er ríkjandi bikarmeistari og fær tækifæri til þess að verja titilinn í úrslitaleik á Wembley gegn Chelsea, sem lagði Liverpool 2:1 í hinum undanúrslitaleiknum á laugardag.
Celin Bizet og Grace Clinton skoruðu mörk Man. United í gær.
Í leik Chelsea og Liverpool skoraði Aggie Beever-Jones dramatískt sigurmark á fjórðu mínútu uppbótartíma. Olivia Smith hafði komið Liverpool yfir og Erin Cuthbert jafnað metin fyrir Chelsea undir lok fyrri hálfleiks.