Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle á Englandi, hefur verið að glíma við veikindi undanfarna daga. Hann var ekki á hliðarlínunni er liðið sigraði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á laugardag vegna lungnabólgu.
Óvíst er hve lengi Howe verður í veikindaleyfi en ljóst er að hann verður ekki klár í slaginn er Newcastle mætir Crystal Palace á heimavelli annað kvöld né þegar liðið mætir Aston Villa á útivelli næstkomandi laugardag.
Í versta falli er tímabilið búið hjá Howe. Jason Tindall aðstoðarmaður hans er klár í að stýra liðinu út tímabilið, sé þörf á því.
„Það er ekki komin nein nákvæm tímasetning á hvenær hann snýr aftur. Ég er klár í að fylla í skarðið hans á meðan. Eddie er í öruggum höndum og hann kemur aðeins til baka þegar hann er heill heilsu,“ sagði Tindall á blaðamannafundi í dag.
Tindall og Howe eru miklir mátar. Þeir léku saman með Bournemouth á sínum tíma og var Tindall síðan aðstoðarmaður hans sem stjóri liðsins og svo aftur hjá Newcastle.
„Það er skrítið að vera án hans. Þetta hefur verið erfitt og það er ólíkt Eddie að vera frá. Hann hefur varla misst út einn dag síðan við byrjuðum að vinna saman,“ sagði Tindall.