Wayne Rooney, markahæsti leikmaður í sögu enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er fullviss um að Marcus Rashford vilji spila fyrir félagið á nýjan leik.
Rashford fór á láni til Aston Villa í janúarglugganum eftir að hafa lent upp á kant við Rúben Amorim stjóra United.
Rashford hefur verið að spila mjög vel hjá Aston Villa undanfarið en liðið datt út fyrir París SG með naumindum í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.
Þrátt fyrir gott gengi Rashfords er Rooney viss um að hann vilji snúa aftur og spila fyrir United.
„Hann er frá Manchester og er stuðningsmaður félagsins. Síðustu 18 mánuðir hafa verið erfiðir og hann þurfti að spila.
Í draumaheimi vill Marcus Rashford spila fyrir United og skilja eftir arfleið hjá félaginu,“ sagði Rooney meðal annars hjá Amazon Prime.